Leita í fréttum mbl.is

Huggulegir menn.

Ég hef átt nokkur góð samtöl við menn úr röðum vítisenglanna.  Í Kaupmannahöfn sat ég fyrir tilviljun með tveimur þeirra og stóðst ekki mátið að spyrja þá um hitt og þetta.  Eftir að hafa gert duglega gert grín að dönskunni minni og uppruna mínum, tóku þeir ágætlega í samtalið og forvitnina og spjallið fór á flug.  Þar sem fara nú sögur af stjórnleysi og brjálæði þessara félaga, þá verð ég nú að viðurkenna að ég hélt á lofti einhvers konar grímu.  Ég ætlaði ekki að fara að hrauna yfir þá með mínum meiningum og ekki heldur gefa algerlega skít í þeirra.  Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu mikið það kom mér á óvart að meiningar okkar voru ekki svo ólíkar.  Fjölskyldugildi voru ofarlega á lista, persónufrelsi var nefnt, skattar og innflutningstollar voru varla fyrir hinn eðlilega mann að þola að mati allra við borðið, og svona mætti lengi telja.  Ég velti þó aftur á móti fyrir mér hvort ég ætti að svara frá hjartanu þegar sá sem mælti mest fyrir þeirra hönd, spurði mig hvað mér fyndist um þeirra félagsskap?  Eftir að hugsa mig aðeins um, undir pressu glotts þess er spurði, þá ákvað ég að svara eins hreinskilnislega og ég þorði.  Ég sagði honum því að það hefði haft gríðarlega neikvæð áhrif á þeirra málstað þegar þeir ætluðu að ráða dómara af dögum með bílsprengju, og drápu fyrir mistök 6 ára stelpu en dómarann engan.  Sögunni fylgdi ekki að skaðsemin fyrir þeirra félagsskap hefði verið alveg jafn mikil hefði dómarinn kvatt þennan heim en ekki stúlkan.  Þeir háðu blóðugan bardaga á götum fólksins og það var of langt gengið.  En stuttu útgáfa svarsins var mætt með furðumiklum skilningi.  Hann var sammála því að það hefði verið fjandans klúður og sagði með einlægum svip lítils gutta að þessi gjörningur væri ekki einkennandi fyrir samtökin.  Það voru bara svo mikil læti á þessum tíma.  Ég tek ekki undir neina réttlætingu á mannsdrápum, en það er hreinlega merkilegt hversu öðruvísi allt horfir við þegar  maður heyrir frásögnina frá einhverjum sem þekkir málefnið og söguna.  Að sjálfsögðu er svo viðhorfið allt öðruvísi en hins almenna borgara þegar kemur að "smáglæpunum".  Auðvitað selja þeir fíkniefni!  Það er nú enginn smá markaður maður!  Já... ekki getur maður svosem neitað fyrir það.  Og að sjálfsögðu keyra þeir vændisbatterí!  Ekkert smá að hafa upp úr því!.  Humm..nei það er náttúrulega svolítið til í því.  Hvað sem fólki finnst um þetta þá er reynsla að heyra þetta svona frá fyrstu hendi.

Ég hitti svo annan engil nokkrum árum síðar.  Að þessu sinni seint að kvöldi í niðamyrkri í iðnaðarhverfi.  Það var þó ekki skuggalegra en svo að þetta var u.þ.b. 300 metrum frá heimili mínu í Noregi, og ég var bara úti að rölta með hundinn minn.   Ég get lofað hverjum sem þetta les að hjartað tekur smá polka þegar andlitshúðflúr mætir þér undan hettupeysu.  Ekki gerir það stöðuna þægilegri þegar ermin á peysunni liggur niður að keðju með Boxweiler (blanda af Rottweiler og Boxer) á hinum endanum.  Frá andlitsflúrinu kom nú samt nokkuð vinaleg kveðja; "God kveld" sagði sá skuggalegi og horfði upp á mig, enda nær 30cm lægri en ég, og jafnmiklu breiðari líka.  "Já gú kvell" svaraði ég kurteislega, og lét svo fylgja; "Er þetta Boxweiler?"  Hann hrósaði glögga útlendingnum og gat sér í kjölfarið réttilega til um heimaland mitt.  "Eruð þið með Boxweiler þar?"  Ég sagði honum að ég hefði ekki séð marga, en eitt sinn hefði ég boðið jafnaldra mínum að fylgjast með einum sem hann hafði bundið við staur fyrir utan veitingahús.  Þar sem sá bundni varð eitthvað órólegur við hvarf húsbóndans, og ég sat einmitt í sólinni með bjór, bauð ég eigandanum að hafa bara hundinn hjá mér og svo græjuðum við vatn fyrir vininn.  Þettu hefðu verið mín fyrstu kynni af Boxweiler og geðið hafði komið mér skemmtilega á óvart.  Þessi litríki einstaklingur sem ég þarna stóð í myrkrinu og ræddi við, fannst eitt atriði í þessari óþarflega löngu Boxweiler sólarbjórsögu alveg ótrúlegt."Bídddu já.. var þetta vinur þinn?" spurði hann.  "Ha.. nei bara einhver gaur." sagði ég.  "Djöfull varstu almennilegur að bjóða honum þetta maður!"  Ég sagði honum að ég hefði nú átt hunda sjálfur og ég sá bara að ég gat auðveldað gæjanum og hundinum hans stöðuna, það hefði nú verið sjálfsagt mál.  "Nei sko..." sagði hann.. "Þetta er einmitt vandamálið með allt skilurðu...fólk er ekkert eitthvað svona sko!  Fólki er bara skítsama einhvern veginn.  Góður maður!"  Svo spurði hann vingjarnlega út í hvuttann minn og var yfir sig hrifinn að Íslendingurinn hefði fengið sér norskan búhund, sem var að hans mati einhver yndislegasta hundategund sem hann vissti um.  Hann afsakaði líka hvað tíkin hans var feiminn þetta kvöldið, hún væri bara alltaf lítil í sér svona rétt eftir lóðarí.  Svo kvöddumst við og óskuðum hvorum öðrum að gott kvöld myndi halda þannig áfram og héldum okkar leið.  Ég gat að sjálfsögðu ekki annað en brosað inni í mér að áður ókunnugur andlitsflúraður vítisengill, skrímsli að mati samfélagsins, hefði hreinlega haft fyrir því að láta mér líða vel með sjálfan mig.  Ég var upphafinn af náunga mínum!  Flestir hefðu haldið að það þyrfti samanburðinn við slíkt skrímsli til að uppskera þá líðan.


mbl.is Fá fulla aðild að Vítisenglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það sem H A eru ekki þekktar af er að vera að angra almenna borgara. Auðvtað eru þetta glæpamenn samt en þetta lið er ekki e h sem venjulegt fólk þarf að óttast. það að nú heiti þessir gaurar mc Hells Angels mun ekki þiða skotbardag við lögregluna á morgunn ég get alveg lofað mönnum því!

óli (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haukur Sigurðsson
Haukur Sigurðsson
Einfaldar skodanir eins manns er fyrir utan stendur.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband